Daglegu lífi Grindvíkinga var kollvarpað í einu vetfangi síðastliðna helgi þegar íbúar bæjarins þurftu að yfirgefa heimili sín í miklum flýti. Ekki má gleyma því að Grindvíkingar hafa búið við langvarandi ógn vegna jarðskjálfta og yfirvofandi eldgosa og sú ógn er ekki liðin hjá.
Þetta samfélag er nú í uppnámi og framtíðin óviss. Fólk hefur áhyggjur af heimilum sínum, persónulegum eigum, fjárhag, atvinnuöryggi og hvort samfélagið sem þeim þykir vænt um verði til staðar þegar yfir lýkur.
Slíkt óvissuástand er streituvaldandi og hefur margvísleg áhrif á líðan okkar. Dæmigerð einkenni sem fólk getur búist við að finna fyrir eru eftirfarandi:
Svefntruflanir
Erfiðleikar með einbeitingu
Óraunveruleikatilfinning
Minnistruflanir
Reiði
Pirringur
Kvíði
Sorg
Tilhneiging til að einangra sig
Doði
Ofurathygli á því sem veldur áhyggjum
Þetta er ekki tæmandi listi og gott er að hafa í huga að streituviðbrögð fólks eru mismunandi á milli manna og mismunandi milli daga. Einhverjir munu finna fyrir öllum þessum einkennum á meðan aðrir gera það ekki. Allt eru þetta eðlileg viðbrögð þegar við tökumst á við ógn og óvissu. Í slíkum aðstæðum verður ekki hjá því komist að hugsanir sem valda okkur vanlíðan leiti á okkur. Þá þarf að gæta þess að leyfa slíkum áhyggjum ekki að taka yfir og reyna að takmarka þann tíma sem við eyðum í slíkar hugsanir án þess þó að ýta þeim alveg frá okkur.
Til þess að komast í gegnum þennan storm á sem farsælastan hátt er mikilvægt að hlúa að sér og sínum og það er hægt að gera á margan hátt.
Viðhalda venjum
Þegar við búum við ógn er hætta á að rútína fari úr skorðum, ekki síst í aðstæðum eins og Grindvíkingar standa nú frammi fyrir þegar þeir geta ekki verið heima hjá sér og vinnustaðir þeirra og skólar eru lokaðir. En eitt það besta sem er hægt að gera í þessum aðstæðum er að reyna að búa til rútínu sem allra fyrst. Halda fast í góðar svefnvenjur, það er fara að sofa og vakna á svipuðum tíma alla daga, borða reglulega og reyna að stunda reglulega hreyfingu. Þessi einföldu atriði, sem eru þó svo gjörn á að fara út í veður og vind í streituvaldandi aðstæðum, eru grunnurinn fyrir allt hitt. Fólk verður að hvílast og nærast til þess að geta tekist á við álagið.
„Eitt það besta sem er hægt að gera í þessum aðstæðum er að reyna að búa til rútínu sem allra fyrst“
Félagsleg tengsl
Félagsleg tengsl eru eitt af því sem fólk ætti að forgangsraða á erfiðum tímum og ágætt að hafa í huga að fólki hættir einmitt til að einangra sig þegar það hefur áhyggjur. Það besta sem hægt er að gera er að vera í sem mestum samvistum við fjölskyldu sína og vini. Það að hitta aðra Grindvíkinga sem eru í sömu sporum er líka alveg ómetanlegt, að geta deilt reynslu sinni og stutt við aðra í sömu stöðu.
„Félagsleg tengsl eru eitt af því sem fólk ætti að forgangsraða á erfiðum tímum“
Tengslanetið okkar er auðvitað mismunandi og ef við höfum fáa í kringum okkur er mikilvægt að reyna að nýta þau úrræði sem standa til boða, eins og það sem Rauði krossinn býður upp á, sækja skipulagða fundi og samkomur sem eru haldin fyrir íbúa Grindavíkur.
Að dreifa huganum
Þrátt fyrir að það geti verið erfitt þegar allt er í uppnámi, þá ætti fólk að reyna að hlaða batteríin með því að gera eitthvað ánægjulegt á hverjum degi, líka á erfiðu dögunum. Þetta ánægjulega þarf ekki að vera stórt, bara hversdagslegir hlutir eins og góður kaffibolli, baka köku, spila spil, hlusta á tónlist eða uppáhaldshlaðvarpið sitt.
Hvað með börnin?
Gott er að gera sér grein fyrir því að börnin okkar eru eins og svampar. Þau heyra miklu meira en við höldum en hafa ekki alltaf þroska til að meta þær upplýsingar sem þau fá og því mikilvægt að við gefum þeim tækifæri á að tjá áhyggjur sínar og spyrja okkur.
Þá er best að svara af hreinskilni og útskýra staðreyndir í samræmi við aldur og þroska barnsins. Við sem erum fullorðin vitum svo sannarlega ekki hvað er fram undan en við getum lagt áherslu á það sem við vitum. Þetta verði allt í lagi og þrátt fyrir að tíminn núna sé erfiður og mikil óvissa ríki þá er þetta tímabundið ástand. Við getum fullvissað börnin okkar um að þau séu örugg, að verið sé að vinna að því að þau komist í skóla, að við munum gæta þess að þau fái að hitta vini sína og fjölskyldur.
Fyrir jafnt börn sem fullorðna er áríðandi að koma á einhvers konar hefðbundnu lífi sem allra fyrst, að börnin fái tækifæri til að sækja skóla og tómstundastarf. Eins að reyna að viðhalda venjum eftir bestu getu, svo sem matartíma, svefntíma og taka frá tíma fyrir fjölskylduna til að gera eitthvað ánægjulegt.
Samfélagið
Við sem samfélag getum stutt við Grindvíkinga á ótal marga vegu þessa dagana, bara það að mæta þeim af hlýhug og samhygð er ómetanlegt. Á þessari stundu ber okkur skylda til þess að skapa fyrirsjáanleika sem allra fyrst, þá fyrst og fremst með því að allir fái varanlegt og öruggt húsaskjól svo fólk geti farið að sinna venjubundnum athöfnum, eins og að börn geti sótt skóla og tómstundir.
Þess ætti að gæta að Grindvíkingar hafi aðgang að sálrænni skyndihjálp þar sem þeir fá upplýsingar um algengar tilfinningar og hugsanir sem búast má við á meðan ógnin vofir enn yfir ásamt upplýsingum um hvernig megi best hlúa að sér sjálfum og meðborgurum í slíkum aðstæðum.
Eins og áður sagði eru margvísleg áfallastreituviðbrögð eðlileg þegar við glímum við ógn og fyrst á eftir. Flestir munu geta unnið úr þessari reynslu á farsælan hátt en ljóst er að einhverjir muni þurfa á stuðningi sérfræðinga að halda. Það er hagur alls samfélagsins að koma auga á þá einstaklinga sem fyrst til að draga úr sálrænum þjáningum fólks.
Comments